John G. Roberts, forseti hæstaréttar, sagði að rannsókn myndi fara fram á lekanum, sem er fordæmalaus í sögu dómstólsins.
Skjalinu var dreift til hæstaréttardómaranna í febrúar á þessu ári en svo virðist sem meirihlutaálitið njóti stuðnings að minnsta kosti fimm af níu dómurum, þeirra sem voru skipaðir þegar repúblikani var við völd í Hvíta húsinu.
Óvíst er um afstöðu Roberts, sem var skipaður af George W. Bush.

Umrætt mál sem liggur fyrir réttinum varðar nýja löggjöf í Mississippi, sem kveður á um bann gegn þungunarrofum eftir 15. viku meðgöngu.
Lögin voru öðrum þræði samþykkt til höfuðs niðurstöðunni í prófmálinu Roe gegn Wade, þar sem hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að konur ættu stjórnarskrárvarinn rétt til að gangast undir þungunarrof þar til fóstrið gæti lifað sjálfstæðu lífi utan líkama konunnar.
Á sínum tíma var það viðmið bundið við 28 vikur en er nú, vegna framfara í læknavísindunum, áætlað í kringum 24 vikur.
Ef marka má drögin sem láku í fyrradag, og Politico birti, hyggst meirihluti hæstaréttar víkja frá því fordæmi sem var sett með Roe gegn Wade árið 1973. Í álitinu segir meðal annars að ákvörðunin í Roe hefði verið röng í grundvallaratriðum og það væri tímabært að færa valdið til að ákvarða rétt kvenna til fóstureyðinga aftur til löggjafans í einstaka ríkjum.
I believe that a woman s right to choose is fundamental. Roe has been the law of the land for almost fifty years, and basic fairness and the stability of our law demand that it not be overturned.
— Joe Biden (@JoeBiden) May 3, 2022
We will be ready when any ruling is issued.
Um leið og fregnir bárust af álitsdrögunum var efnt til mótmæla um allt land. Samskiptamiðlar endurspegluðu vel hversu klofin bandaríska þjóðin er í málinu, jafnvel þótt meirihluti sé fylgjandi því að konur eigi að hafa lokaorðið um eigin líkama.
Ríkisstjórar og aðrir ráðamenn hétu því að fylgja málinu eftir; demókratar með því að lögfesta Roe gegn Wade en repúblikanar með því að hvíla ekki fyrr en þungunarrof hefðu verið bönnuð á landsvísu.
Joe Biden Bandaríkjaforseti sagðist myndu gera allt í sínu valdi til að tryggja rétt kvenna til þungunarrofs í lögum. Til þess þyrfti þó fleiri vilhalla þingmenn. Þá ítrekaði hann að ef þetta yrði niðurstaða hæstaréttar, yrði það undir kjósendum komið að standa vörð um rétt kvenna.