„Þetta var frábært svar hjá stelpunum, við mættum dýrvitlausar fyrir leik og ég talaði um það fyrir leik að ég ætlaði að ná í úrslitakeppni ÍBV sem tókst og allar stelpurnar gáfum allt í leikinn,“ sagði Sigurður Bragason kátur eftir leik.
ÍBV komst snemma fjórum mörkum yfir sem Stjarnan náði aldrei að saxa niður og gera þetta að jöfnum leik.
„Varnarleikurinn var frábær, við vorum þéttari og okkur tókst að loka á það sem gekk illa í síðasta leik. Mér fannst meiri trú í öllu hjá okkur hvort sem það var sókn, vörn eða markvarsla.“
Stjarnan gerði þrjú mörk í röð í seinni hálfleik og hótaði áhlaupi en ÍBV lét það ekki á sig fá og náði strax upp sínum leik aftur.
„Við svöruðum áhlaupi Stjörnunnar frábærlega. Við ræddum það að skíta ekki í buxurnar þegar andstæðingurinn kemur með áhlaup því við höfum verið að gera það. En í dag svöruðum við áhlaupinu vel.“
Á þriðjudaginn mætast liðin í oddaleik í Vestmannaeyjum og er mikil tilhlökkun hjá Sigurði Bragasyni.
„Það verður veisla í Eyjum ég veit það. Það var mjög vel mætt síðast og á ég von á en betri stemmningu í oddaleiknum sem verður frábær leikur. Þetta verður blóðug barátta því ég veit að Stjörnukonur voru ekki ánægðar með sinn leik í dag,“ sagði Sigurður að lokum.