Á fundinum gafst öllum nefndarmönnum færi á að spyrja ráðherrann út í þau atriði sem tengjast útboðsferlinu á 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka sem fór fram í lok síðasta mánaðar. Útboðið hefur orðið ansi umdeilt og vakið hörð viðbrögð almennings.
Eitt af því sem hefur vakið reiði í samfélaginu er sú staðreynd að faðir Bjarna var einn þeirra fjárfesta sem bauðst að kaupa hlut í útboðinu. Bjarni hefur sjálfur sagst ekki hafa haft hugmynd um að faðir hans væri á meðal þeirra sem keyptu í útboðinu og að hann hefði kosið að fjölskylda hans hefði ekki komið nálægt því.
Á fundinum í morgun gerði Björn Leví Gunnarsson, nefndarmaður Pírata, þetta að efni spurningar sinnar til Bjarna:
„Bjarni, heldurðu í alvörunni að þú komist upp með að selja pabba þínum banka eftir allt sem að á undan er gengið?“ spurði Björn Leví og vísaði svo til Vafningsmálsins, sölu Bjarna á hluti sínum í Sjóð 9 í Glitni rétt fyrir hrun og fleiri mál sem hafa þótt erfið fyrir Bjarna í tíð hans sem ráðherra.
„Eftir allt þetta vesen sem að þú og flokkurinn þinn eruð búin að láta þjóðina ganga í gegn um á undanförnum áratug... Allir aðrir stjórnmálamenn, myndi maður halda, sem hafa bara snefil af virðingu fyrir siðmenntuðu samfélagi væru búnir að segja af sér út af hverju einasta máli í þessu. Heldurðu í alvöru að þú komist upp með þetta?“ spurði Björn Leví.
Þessi spurning vakti litla ánægju Bjarna:
„Þetta er bara áróður sem þú ert að þylja hér upp og þú flytur hann hingað inn í þessa nefnd líka,“ sagði Bjarni. Hann hefði margoft svarað fyrir þau mál sem Björn taldi upp, bæði fyrir Birni og öðrum pólitískum andstæðingum sínum en einnig kjósendum í landinu.
„Uppistaðan af öllu því sem þú ert að telja er áróður og nú gengum við til kosninga í september síðastliðnum og það var einn þingmaður sem fór með fleiri atkvæði á bak við sig en nokkur annar sem fékk kosningu í þeim alþingiskosningum og það er sá sem þú ert að tala við núna,“ sagði Bjarni.