Fram kemur í nýjum tölum Hagstofunnar að verð á mat og drykkjarvörum hafi hækkað um 1,4% milli mars og apríl. Voru áhrif á vísitölu neysluverðs 0,20% en þar af voru mjólkurvörur 0,13%.
Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 2,4% og hafði 0,45% áhrif á vísitöluna. Verð á flugfargjöldum til útlanda hækkaði um 22,9% og hafði áhrif til hækkunar um 0,37%.
Greining Íslandsbanka hafði spáð því að vísitala neysluverðs myndi hækka um 0,8% í apríl og að tólf mánaða verðbólga færi úr 6,7% í 6,8%.
Á sama tíma gerði Hagfræðideild Landsbankans ráð fyrir tæplega 0,7% hækkun vísitölunnar milli mars og apríl sem þýddi að ársverðbólga stæði óbreytt í 6,7% milli mars og apríl.

Peningastefnunefnd Seðlabankans kynnir næstu vaxtaákvörðun sína þann 4. maí og spáir Greining Íslandsbanka því að stýrivextir verði hækkaðir um 0,5 prósentustig úr 2,75% í 3,25%. Sömuleiðis telur bankinn vera talsverðar líkur á því að peningastefnunefnd hækki stýrivexti um 0,75 prósentustig. Þó sé sennilegt að nefndin muni nýta sér það að stutt sé í næstu vaxtaákvarðanir og hækki í smærri skrefum.
Fréttin hefur verið uppfærð.