Þrátt fyrir háværar gagnrýnisraddir hvaðanæva að um nýafstaðið útboð ríkisins á hlut í Íslandsbanka er fjármálaráðherra sáttur með heildarútkomuna.
„Það er hins vegar mjög slæmt að það standi út af atriði sem þurfi að fara ofan í saumana á strax í kjölfarið af útboðinu. Að því leytinu til er staðan ekki sú sem ég hafði óskað mér fyrir fram,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Rætt var við hann í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld:
Nokkrir mótmælafundir hafa verið haldnir á Austurvelli síðustu daga þar sem kallað hefur verið eftir afsögn Bjarna. Mótmælin hafa verið ansi fjölmenn hingað til. Afar fámenn mótmæli fóru hins vegar fram fyrir utan ráðherrabústaðinn í morgun á meðan ríkisstjórnin fundaði þar sem einn var handtekinn fyrir að vera með blys. Fréttastofa var á staðnum í morgun og náði handtökunni á myndband:
„Pólitíska ábyrgðin er alltaf hjá mér“
Rétt eftir páska greindi ríkisstjórnin frá því að hún hygðist leggja niður Bankasýslu ríkisins og bíða með að selja restina af Íslandsbanka í bili.
Bjarni þvertekur fyrir að með þessu sé verið að firra hann ábyrgð á því sem betur hefði mátt fara í ferlinu eins og margir úr stjórnarandstöðunni hafa haldið fram.
„Nei, nei. Pólitíska ábyrgðin er alltaf hjá mér,“ segir hann.
„Þau atriði sem eru núna til skoðunar eru svona dáldið sértæk og varða svona útfærslu og framkvæmdaleg atriði fyrst og fremst sýnist mér. En við skulum bara sjá. Við skulum bíða eftir niðurstöðu ríkisendurskoðunar og sjá hvað kemur út úr því og sömuleiðis hvað Seðlabankinn segir.“
Vantreystir ekki Bankasýslunni
Hann segir að með því að leggja bankasýslu ríkisins niður sé verið að breyta öllu regluverkinu fyrir næsta söluferli.
„Við bendum á þætti sem varða gagnsæi og upplýsingagjöf sem að mínu mati hafa verið dálítið gagnrýnisverð í síðasta útboði. Og auðvelt að vísa bara til umræðunnar sem hefur verið um það. Og hyggjumst leggja til nýtt fyrirkomulag til framtíðar. Og þetta eru bara tvö aðskilin mál í mínum huga,“ segir Bjarni.
Þannig sé ekki um áfellisdóm yfir Bankasýslu ríkisins að ræða.
„Sko, ef að málið snerist um algert vantraust á Bankasýsluna þá hefðum við einfaldlega sagt það. Þá hefðum við óskað eftir því að stjórnin myndi víkja og stjórnendur. Það er ekki það sem við erum að gera,“ segir Bjarni.