Gabríel Douane Boama slapp úr haldi í Héraðsdómi Reykjavíkur í byrjun vikunnar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var hann handtekinn á sjöunda tímanum í morgun í sumarbústað sem tekinn hafði verið á leigu austan við höfuðborgina. Húsleit var gerð á nokkrum stöðum í aðdragandanum og ökutæki stöðvuð.
Fimm voru handtekin til viðbótar, fjórir karlmenn og ein kona, öll um tvítugt og félagar Gabríels. Á meðal þess sem lögregla rannsakar er hvort fólkið hafi aðstoðað hann við flóttann, að sögn Guðmundar Páls Jónssonar lögreglufulltrúa hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Fólkið verður yfirheyrt í dag en ekki er búið að taka ákvörðun um hvort farið verði fram á gæsluvarðhald. Þá aðstoðaði sérsveitin við handtökuna. Guðmundur segir það ekki hafa verið þannig að sést hafi til Gabríels í bústaðnum eða að ábendingar frá almenningi hafi borist um viðveru hans þar. Handtakan hafi verið afrakstur umfangsmikillar rannsóknarvinnu; lögreglumenn hafi unnið dag og nótt í vikunni.