Bankasýslan réð alls ellefu fyrirtæki sem ráðgjafar, umsjónar- eða söluaðila á Íslandsbanka vegna sölu á bankanum. Þannig sá fyrirtækja-og verðbréfamiðlun Íslandsbanka um söluna. Fossar markaðir voru söluráðgjafar og Íslensk verðbréf, ACRO verðbréf og Landsbankinn voru söluaðilar. Alls fengu fyrirtækin ellefu greitt 700 milljónir króna fyrir.
Fram hefur komið að átta starfsmenn Íslandsbanka, eigendur og eða aðrir söluaðilar í útboðinu hafi keypt hlutabréf í útboðinu. Íslandsbanki svaraði á fréttastofu á sínum tíma þar sem kom fram að ekki hefði verið tilkynnt um alla starfsmennina sem innherja því þeir væru það ekki samkvæmt reglum bankans.
Mikill hagsmunaárekstur ef ráðgjafar Bankasýslunnar keyptu í útboðinu
Jón Gunnar Jónsson forstjóri Bankasýslunnar segist hafa starfað á alþjóðlegum verðbréfamörkuðum og þar hafi starfsmenn fyrirtækja sem komu nálægt hlutafjárútboðum aldrei mátt taka þátt í þeim.
„Ég starfaði um tíma á slíkum mörkuðum og þá kom aldrei nokkurn tíma til greina að starfsmaður tæki þátt í útboði á sama tíma og fyrirtækið sem hann starfaði hjá sæi um einhvers konar ráðgjöf eða sölu á hlutafé þess. Þannig að ég yrði fyrir miklum vonbrigðum ef það er svo niðurstaðan í þessu útboði. Ef þeir sem standa að útboðinu og eru nálægt útboðsferlinu, eru að eiga viðskipti í bankanum á sama tíma þá veldur það mjög miklum hagsmunaárekstrum að mínu viti gagnvart viðskiptavinum þess. Því fyrir hvern hlut sem fer í hlut starfsmanna fara færri í hlut viðskiptavina ,“ segir Jón Gunnar.
Regluvörður hafi samþykkt kaupin
Jón Gunnar segist hafa fengið þær upplýsingar að regluvörður Íslandsbanka hafi samþykkt að starfsmennirnir keyptu. Aðspurður segir hann að slíkt myndi ekki ganga erlendis.
„Ég geri ekki ráð fyrir því. Fjármálaeftirlit hefur hafið könnun á þessari sölumeðferð og hún virðist beinast að þessum sölufyrirtækjum sem sáu um söluna. Komi í ljós að starfsfólk þar hafi ekki farið eftir reglum þá mun það ekki hafa áhrif á útboðið, aðeins á orðspor viðkomandi fyrirtækis,“ segir hann.
Aðspurður um hvort hann ætli að gera öðruvísi kröfur til söluaðila og ráðgjafa fyrir næsta útboð svarar Jón:
„Ef kemur í ljós að eftirliti og regluvörslu með þessari sölu var á einhvern hátt ábótavant þá er ekki loku fyrir það skotið að við myndum setja fram kröfur í samræmi við þá góðu stjórnsýsluhætti og viðskiptahætti sem okkur ber að viðhafa.“
Hann segir hins vegar ekki áformað að selja meira í bankanum fyrr en búið sé að yfirfara allt varðandi síðasta útboð en Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitið fara nú yfir söluna.
Við gerðum allt rétt
Þingmaður Vinstri grænna hefur farið fram á að forstjóri og stjórn Bankasýslunnar víki vegna sölunnar. Jón Gunnar segist ekki ætla að gera það.
„Þessi þingmaður hefur aldrei haft samband við mig til að fá upplýsingar um söluna og í ljósi farsællar niðurstöðu útboðsins tel ég ekki ástæðu til að víkja. Þá höfnum við alfarið að það hafi verið annmarkar á sölunni af okkar hálfu. Bankasýslan fór að lögum í einu og öllu í þessu ferli,“ segir Jón Gunnar.