„Hluti þátttakenda fer í gegnum lánastofnanir, annað hvort til að fá fjármögnun eða gegnum skiptasamninga,“ segir Jón Gunnar en skiptasamningar eru samningar sem notaðir eru til að draga úr áhættu í viðskiptum.
Hann segir Bankasýsluna ekki hafa upplýsingar um það hvort einhverjir kaupendur hafi þegar selt sinn hlut í bankanum eftir útboðið þar sem hluti þátttakenda fari í gegn um lánastofnanir. Því birtist á hluthafalista Íslandsbanka fjármálastofnanir sem stórir hluthafar.
„Þannig að margir þessara fjárfesta sem tóku þátt í útboðinu geri ég ráð fyrir hafa farið og fengið fjármögnun í gegnum lánastofnun og hlutdeild þeirra og eignarhald í bankanum birtist þar,“ segir Jón Gunnar.
Þannig að það eru einhverjir fjárfestar sem tóku lán fyrir kaupunum?
„Þú sérð á listanum yfir hluthafa í Íslandsbanka að þar eru Landsbankinn og Arion banki ofarlega og það er skýringin á því.“
Hann segir þá ekki heldur liggja fyrir hvort erlendir kaupendur hafi selt sína hluti í bankanum.
„Þeir hafa einnig farið í gegn um skiptasamninga erlendis þannig að við höfum ekki fullkomnar upplýsingar um það hverjir hafa selt. En það þarf ekki að koma á óvart að einhverjir selji þegar hlutur í félagi hækkar um átta prósent eftir útboð,“ segir Jón Gunnar.