Þetta kemur fram í nýrri greiningu bankans þar sem hann spáir því að verðbólgan mælist 7,7 prósent í júlí. Verðbólga mældist 6,7 prósent í mars.
Spáir bankinn því að verðbólga mælist 6,8 prósent í apríl, en Hagstofan mun birta nýjustu útreikninga fyrir vísitölu neysluverðs þann 28. apríl næstkomandi.
Í spá bankans kemur fram að mikilvægt sé fyrir þróun vísitölu neysluverð að hægja taki á hækkun íbúðaverðs. Gerist það muni það vega á móti svokallaðri innfluttri verðbólgu.
„Gangi spá okkar eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 6,8% en hún var 6,7% í mars. Verðbólga hefur ekki mælst svo mikil í tólf ár. Útlit er fyrir að á næstu mánuðum muni hún aukast enn frekar og samkvæmt skammtímaspá okkar nær verðbólga toppi í 7,7% í júlí. Vart þarf að taka það fram að óvissan er mikil og aðstæður fljótar að breytast líkt og hefur verið raunin á undanförnum mánuðum,“ segir í spá bankans.
Reiknar bankinn þó með að verðbólga fari hjaðnandi eftir að toppinum er náð.
„Við erum þrátt fyrir allt fremur bjartsýn á að við náum tökum á verðbólgunni og hún taki að hjaðna nokkuð hratt á næsta ári. Spá okkar hljóðar upp á 7% verðbólgu að meðaltali árið 2022, 4,4% árið 2023 og 2,9% árið 2024.“