Míu bangsinn er hannaður eftir aðalpersónu bókar Þórunnar Evu, Mía fær lyfjabrunn, sem fjallað hefur verið um hér á Lífinu á Vísi. Öll börn sem þurfa á lyfjabrunni að halda vegna veikinda sinna fá bókina að gjöf. Bergrún Íris Sævarsdóttir barnabókahönnuður og listakona skapaði Míu.
Þórunn Eva var á síðasta ári valin Framúrskarandi ungur Íslendingur fyrir vinnu sína í þágu langveikra barna. Guðni Th. forseti Íslands afhenti henni viðurkenninguna. Hún á sjálf tvo langveika drengi, sem voru báðir viðstaddir afhendingu Míu bangsanna í gær.

Mia Magic félagið afhendir langveiku barni og foreldrum langveiks barns sérstakt Míu box í hverjum mánuði, fulla af gjöfum frá styrktaraðilum verkefnisins. Á hverju ári eru svo Míu verðlaunin afhent einstaklingi sem vinnur með langveikum börnum. Gunnlaugur Sigfússson barnahjartalæknir hlaut verðlaunin á síðasta ári.


