TLC munu koma fram í Laugardalshöllinni þann 17. júní og miðasalan hefst í hádeginu á þriðjudaginn í næstu viku. Svala Björgvinsdóttir og Þórunn Antonía munu hita upp fyrir hljómsveitina.
Girlpower kvöld í Laugardalshöll
Secret Solstice hefur verið frestað en öllum miðahöfum er boðið á TLC en miðarnir munu einnig gilda á hátíðina þegar hún verður næst haldin.
„Ég fæ þann mikla heiður að hita upp fyrir eina af mínum uppáhalds girlgroup TLC þann 17. júní í Laugardalshöllinni. Þið viljið ekki missa af þessu girlpower kvöldi,“ sagði Svala í færslu á Instagram í dag.
25 ár frá CrazySexyCool
TLC var stofnuð í Atlanta árið 1990 og naut fádæma vinsælda á tíunda áratugnum. Sveitin náði fjórum lögum á toppinn í Bandaríkjunum; Creep, Waterfalls, No Scrubs og Unpretty.
Hún samanstóð af þremur meðlimum, þeim Rozonda „Chilli“ Thomas, Tionne „T-Boz“ Watkins, og Lisa „Left Eye“ Lopes. Árið 2002 lést Lopes þegar hún lenti í bílslysi í Hondúras þar sem hún var að sinna góðgerðarstörfum. Síðan þá hafa þær Thomas og Watkins tvær haldið merkjum sveitarinnar uppi og munu þær koma fram hér á Íslandi.
Tónleikarnir eru hluti af tónleikaferðalaginu Celebration of CrazySexyCool sem fagnar 25 ára útgáfuafmæli þekktustu plötu sveitarinnar.