Fjárfestingin mun fjármagna frekari vöxt félagsins sem hyggst ráða um þrjátíu nýja starfsmenn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Dohop. Fyrirtækið gerir flugfélögum kleift að selja tengiflug með öðrum flugfélögum og fjölga þannig áfangastöðum og farþegum.
„Fjöldi flugfélaga í viðskiptum við Dohop hefur tvöfaldast frá því í lok árs 2020 þegar SEP fjárfesti fyrst í félaginu. Síðan þá hefur verið töluverður starfsmannavöxtur hjá félaginu en 25 manns hafa bæst í hópinn. Viðbótarfjárfesting SEP mun auka vöxt okkar enn frekar og efla tækni okkar til að gjörbylta tengingum í flugi,“ segir Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri Dohop.
Tæknin sé leiðandi í heiminum
Um sextíu flugfélög nýta tækni Dohop í dag, þar á meðal easyJet, Air France, Vueling, Transavia og Eurowings. Dohop byggir á átján ára reynslu sinni sem flugleitarvél og þeirri tækni sem liggur þar að baki.
„Með afléttingu ferðatakmarkana eftir heimsfaraldurinn hafa flugfélög mikinn áhuga á að stækka leiðarkerfi sín og dreifingargetu. Tækni Dohop til að tengja leiðarkerfi flugfélaga saman er leiðandi í heiminum. Við erum ánægð með að veita félaginu aukna fjármögnun til að vaxa enn frekar,“ segir Andrew Davidson, framkvæmdastjóri hjá SEP.
Árið 2007 fjárfesti SEP í Skyscanner sem er ein vinsælasta flugleitarvél í heimi. Skyscanner var selt árið 2016 til Trip.com á jafnvirði 210 milljarða íslenskra króna, að því er fram kemur í tilkynningu.