„Ég ræddi við hana um þetta en hún sagði mér aldrei að hún væri hætt,“ sagði Þorsteinn á blaðamannafundi í dag.
Elín Metta missti af landsleikjum síðasta haust vegna meiðsla en hefur jafnað sig af þeim og spilað með Val í vetur.
Í byrjun þessa mánaðar var því hins vegar haldið fram í hlaðvarpsþættinum Dr. Football að þessi mikla markamaskína hefði ákveðið að leggja skóna á hilluna, 27 ára gömul. Elín Metta svaraði því til við Vísi að það væri einfaldlega rangt en hefur ekki tjáð sig frekar um málið.
Þorsteinn sá engu að síður ástæðu til að heyra hljóðið í Elínu Mettu en eins og fyrr segir fékk hann þá staðfestingu á því að Valskonan yrði áfram til taks fyrir landsliðið sem er á leið í afar mikilvæga leiki í undankeppni HM í apríl og svo í lokakeppni EM í Englandi í júlí.
„Reyndar voru þessar fréttir að koma þegar við vorum úti og maður var ekki mikið að stressa sig á þessu þá,“ sagði Þorsteinn sem var með íslenska landsliðinu á æfingamóti í Bandaríkjunum undir lok febrúar.
„Það kom alla vega aldrei til tals hjá henni að hún væri hætt í fótbolta,“ sagði Þorsteinn en vildi ekki fara nánar út í samskipti sín við Elínu Mettu.