Innlent

Nýr mið­bær og göngu­gata í kortunum á Egils­stöðum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hér má sjá tölvumynd af væntanlegum miðbæjarkjarna.
Hér má sjá tölvumynd af væntanlegum miðbæjarkjarna. Múlaþing

Í nýju deiluskipulagi í miðbæ Egilsstaða er gert ráð fyrir 160 nýjum íbúðum auk göngugötu. Uppbygging miðbæjarins hefur verið á döfinni allt frá árinu 2004 en fyrst nú virðist vera komin hreyfing á hlutina.

Í tilkynningu á vef Múlaþings segir að miðbæjarkjarninn hafi fengið nafnið Straumurinn og að göngugatan Ormurinn sé í lykilhlutverki í kjarnanum. Gert er ráð fyrir 160 íbúðum á efri hæðum bygginga og verslun á neðri hæðum.

Hugmyndir um uppbyggingu miðbæjarkjarna eru ekki nýjar af nálinni á Egilsstöðum því árið 2004 var haldin hugmyndasamkeppni um nýjan miðbæ þar sem arkitektastofan Arkís vann til fyrstu verðlauna. Deiliskipulag sem var samþykkt árið 2006 komst hins vegar aldrei til framkvæmda.

Árið 2015 hófst síðan vinna við breytingu á deiliskipulaginu en Arkís vann það í samvinnu við bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs og á síðasta ári var endurskoðað skipulag samþykkt.

Göngugata með vísan í Lagarfljótsorminn

Samkvæmt hinu nýja skipulagi verður byggð þétt og hlutfall íbúða aukið. Markmiðið er að skapa líflegan miðbæ með opnum torgum og grænum svæðum fjarri bílaumferð.

Í skipulagstillögunni er göngu- og verslunargata sem fengið hefur nafnið Ormurinn, með vísan í Lagarfljótsorminn og þjóðsöguna um hann. Inngangar í verslanir verða frá göngugötunni og á að gera umhverfið í kring aðlaðandi með fallegum setsvæðum. Torg verður fyrir miðri göngugötu sem mun nýtast fyrir viðburði og hátíðahöld.

Múlaþing hefur auglýst eftir samstarfsaðilum um uppbyggingu innan fjögurra skilgreinda reita sem mynda kjarna miðbæjarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×