Í tilkynningu segir að verkefni Ásgeirs hjá Kaptio verði að leiða áframhaldandi þróun á vöruframboði fyrir viðskiptavini fyrirtækisins sem séu stór alþjóðleg fyrirtæki í ferðaþjónustu.
„Ásgeir kemur til Kaptio frá Icelandair þar sem hann hefur starfað í tæp sex ár sem hugbúnaðararkitekt og teymisstjóri, en hann hefur gegnt lykilhlutverki í viðamikilli uppbyggingu CRM-innviða Icelandair síðustu ár. Þar áður starfaði Ásgeir í fimm ár sem hugbúnaðarsérfræðingur hjá Advania.
Ásgeir útskrifaðist nýlega með meistaragráðu í upplýsingastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík en hann er einnig með B.S. gráðu í tölvunarfræði frá sama skóla. Hann er í sambúð með Söndru Dís Dagbjartsdóttur og eiga þau saman tvö börn.“
Kaptio er alþjóðlegt hugbúnaðarfyrirtæki sem smíðar bókunar- og viðskiptatengslahugbúnað fyrir ferðaþjónustu. „Félagið, sem var stofnað árið 2012, er með höfuðstöðvar í Reykjavík auk þess að vera með starfsemi í Bretlandi og Kanada en viðskiptavinir félagsins eru alþjóðleg fyrirtæki í ferðaþjónustu. Síðastliðin ár hefur Kaptio verið í hröðum vexti og starfa nú um 50 manns hjá félaginu. Helstu hluthafar Kaptio eru Frumtak og Nýsköpunarsjóður auk stofnenda.“