„Húðin er stærsta líffærið okkar og við verðum að hugsa vel um hana. Rosalega mikilvægt finnst mér að þurrbursta húðina vel.“
Ingunn Sig og Heiður Ósk heimsækja Þórunni í nýjasta þættinum af Snyrtiborðinu. Þórunn er þekkt fyrir litríkan stíl og uppáhalds liturinn hennar er bleikur. Hún hugsar vel um húðina og þá sérstaklega að gefa henni raka.
„Það mikilvægasta fyrir varaumhirðu er að drekka vatn.“
Þegar þær fara að ræða förðun viðurkennir Þórunn að hún farðar sig oftast í flýti.
„Ég mála mig yfirleitt í bílnum á leiðinni á staði. Ég hoppa í bað, set á mig Marc Inbane brúnkukrem og eitthvað og hendi mér í fötin. Ég er oft með hælana í poka og svo mála ég mig á hverju rauðu ljósi sem ég stoppa á.“
Þáttinn má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan. Þar spjallar hún meðal annars um uppáhalds förðunarvörurnar sínar, varalitinn sem gerði allt vitlaust eftir dramaviðtal, það besta sem hún notar við bólum og margt fleira.