Fótbolti

Ísak Bergmann á lista yfir 50 bestu undrabörn heims

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson er á lista yfir 50 bestu undrabörn heims.
Ísak Bergmann Jóhannesson er á lista yfir 50 bestu undrabörn heims. Vísir/Jónína Guðbjörg

Hvað eiga þeir Jude Bellingham, Gavi, Jamal Musiala, Harvey Elliott og Ísak Bergmann Jóhannesson sameiginlegt? Þeir eru allir á lista yfir 50 bestu undrabörn heims í fótbolta.

Það er fótboltamiðillinn Goal.com sem tók saman listann, en Ísak Bergmann situr í 33. sæti hans. Allir leikmenn fæddir eftir 1. janúar 2001 koma til greina á listanum. Skoða má listann í heild sinni með því að smella hér.

„Árið 2020 þurfti sænska liðið IFK Norrkoping að vísa áhuga frá nokkrum af stærstu liðum Evrópu frá, slík var spennan í kringum miðjumanninn Ísak Bergmann Jóhannesson,“ segir í umfjöllun Goal.com.

„Þrátt fyrir áhuga frá Real Madrid, Liverpool og Juventus var það að lokum FC Kaupmannahöfn sem landaði samningi við þennan 18 ára leikmann sumarið 2021, en liðið borgaði í kringum 4,5 milljónir evra fyrir son fyrrverandi miðjumanns ensku og spænsku úrvalsdeildarinnar, Joey Gudjonsson [Jóhannes Karl Guðjónsson].

Nú þegar hefur hann leikið fyrir A-landsliðið, en Jóhannesson heldur áfram að heilla með sendingagetu sinni og leikskilningi síðan hann flutti sig til dönsku höfuðborgarinnar, og það ætti ekki að líða langur tími þangað til lið í einum af „stóru fimm“ deildum Evrópu krækir í hann.“

Í efsta sæti listans situr Jude Bellingham, leikmaður Dortmund. Florian Wirtz, leikmaður Bayer Leverkusen vermir annað sætið og Gavi, leikmaður Barclona situr í því þriðja.

Topp 10

Tíu efstu sætin á lista Goal.com yfir 50 bestu undrabörn heims. Lið og þjóðerni eru í sviga.

1. Jude Bellingham (Dortmund/England)

2. Florian Wirtz (Bayer Leverkusen/Þýskaland)

3. Gavi (Barcelona/Spánn)

4. Jamal Musiala (Bayern München/Þýskaland)

5. Harvey Elliott (Liverpool/England)

6. Rayan Cherki (Lyon/Frakkland)

7. Devyne Rensch (Ajax/Holland)

8. Youssoufa Moukoko (Dortmund/Þýskaland)

9. Benjamin Sesko (Red Bull Salzburg/Slóvenía)

10. Ricardo Pepi (FC Dallas/Bandaríkin)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×