Um er að ræða auglýsingu sem vakti mikla athygli á sínum tíma en hún þótti bæði snjöll og voguð. Auglýsinguna gerði auglýsingastofan Brandenburg fyrir fjarskiptafyrirtækið Nova.
Nekt í frómum tilgangi
Í sérstakri útskýringu sem fylgdi þegar auglýsingin var fyrst sýnd var talað um að hugmyndin væri sú að hvetja fólk til að nota armbandsúr með appi og hvíla símann. Þá vildu auglýsendur vekja athygli á mikilvægi geðræktar; hvernig bæta megi andlega líðan. Það var nánast allt undir:
„Við þurfum að tala aðeins um líkamsvirðingu. Við erum allavega, allskonar og af öllum mögulegum stærðum og gerðum. Hér er nýja auglýsingin okkar í allri sinni dýrð. Ekkert að fela. Ekkert til að skammast sín fyrir. Allir úr.“
Í auglýsingunni bregður fyrir fjölda fólks á Adams- og Evuklæðum einum saman fyrir utan að bera armbandsúrið góða.
Sjö milljóna króna krafa
Ekki var þó hugað betur að geðræktinni en svo að nú hefur einn þeirra sem leikur í auglýsingunni stefnt þeim sem komu að gerð auglýsingarinnar. Maðurinn heldur því fram að hann hafi fengið það skriflegt að hann myndi ekki sjást nakinn á skjánum. Það fór þó ekki svo.
Málið telst viðkvæmt en í samtali Vísis við lögmann mannsins kemur fram að þetta hafi fengið verulega á skjólstæðing hans. Maðurinn hafi verið fullvissaður um að hann myndi ekki birtast nakinn. En svo hafi það verið brotið, að því er virðist í hita leiksins.
Maðurinn hafi fengið bakþanka eftir að tökum lauk, þar sem allir voru naktir á setti og haft samband við þá sem stóðu að tökum til að fullvissa sig um að ekki færi svo að hann myndi birtast nakinn. Öðrum kosti hefði hann dregið sig út úr verkefninu. Það hafi hann fengið staðfest skriflega.
Eftir því sem Vísir kemst næst mun maðurinn fara fram á bætur sem nema rúmum sjö milljónum króna.
...
Uppfært 14:58
Nova sendi nú síðdegis frá sér yfirlýsingu vegna málsins en frá efni hennar er greint í frétt sem sjá má hér neðar: