CrossFit samtökin hafa nú tekið á móti öllum úrslitum fyrir annan hluta The Open og þó að niðurstöðurnar séu ekki endanlega staðfestar þá breytast þær ekki mikið úr þessu.

Tíu prósent keppenda tryggja sér sæti í átta liða úrslitunum en þar verður síðan keppt um sæti í undanúrslitunum. Allt miðast þetta við að tryggja sér sæti á heimsleikunum í haust. Þriðji og síðasti hluti The Open hefst á morgun.
Anníe Mist Þórisdóttir er langefst af íslenska CrossFit fólkinu. Hún náði 37. besta árangrinum í 22.2 og það skilar henni alla leið upp í tuttugasta sætið á heildarlistanum.
Þuríður Erla Helgadóttir hækkaði sig líka um fimm sæti og er núna í 52. sæti. Jöfn og góð byrjun hennar lofar góðu fyrir framhaldið.
Sara Sigmundsdóttir hækkaði sig líka mikið frá því í 22.1 en hún fór úr 117. sæti og upp í 74. sæti.

Björgvin Karl Guðmundsson er síðan fjórði Íslendingurinn inn á topp hundrað og jafnframt eini íslenski karlmaðurinn þar. Björgin datt niður um 27 sæti en er í 77. sæti eftir fyrstu tvo hlutina.
Næsti íslenski karlmaður á eftir Björgvini er Þorri Þorláksson sem er í 475. sæti í heildarkeppninni. Ingvar Svavarsson er í 647. sæti, Bjarni Leifs er í 902. sæti og Alex Daði Reynisson er í 1170. sæti.
Katrín Tanja Davíðsdóttir er fjórða hjá íslensku konunum en er bara í 208. sæti samanlagt. Katrín féll niður um 62 sæti milli vikna. Sólveig Sigurðardóttir er fimmta meðal íslensku kvennanna en í 213. sæti í heildarkeppninni.
Hin átján ára gamla Mallory O'Brien heldur efsta sætinu en heimsmeistarinn Tia-Clair Toomey er kominn upp í efsta sætið eftir að haga náði bestum árangri allra í 22.2 Norski táningurinn Leah Stören er nú í þriðja sætinu en hún er bara átján ára eins og O'Brien.
Norðmenn eiga líka Andrea Solberg í fimmta sætinu en á undan henni er Frakkinn Laurie Clément. Brooke Wells, sem er að koma til baka eftir meiðsli, er nú sjöunda en sjötta er Emma McQuaid frá Írlandi.
Bandaríkjamenn eru í efstu þremur sætunum hjá körlunum. Phil Toon er fyrstur, Saxon Panchik er annar og Matt Poulin er þriðji. Svíinn Victor Ljungdal sem varð fyrstu eftir 22.1 datt niður í fjórða sætið og heimsmeistarinn Justin Medeiros er fimmti eins og í viku eitt.