Viðskipti innlent

Tug­milljóna mál þrota­bús Pressunnar gegn ríkinu fyrir Hæsta­rétt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hæstiréttur Íslands
Hæstiréttur Íslands

Hæstiréttur hefur veitt þrotabúi Pressunnar ehf. leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar þar sem íslenska ríkið var sýknað af tugmilljóna kröfu þrotabúsins.

Málið má rekja til þess að þrotabú Pressunnar, félags sem var umsvifamikið á íslensku fjölmiðlamarkaði fyrir nokkrum árum, krafðist þess að greiðslum frá Pressunni upp á ríflega sjötíu milljóna króna til ríkisins yrði rift.

Um var að ræða tvær greiðslur, ein upp á 1,6 milljónir og hin upp á 69,1 milljón krónur. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að fyrri greiðslan færi riftanleg, en sú síðari ekki þar sem hún hafi verið innt af hendi af þriðja aðila.

Þrotabúið fór fram á það við Hæstarétt að mega skjóta þeirri niðurstöðu Landsréttar að seinni greiðslan væri óriftanleg til Hæstaréttar.

Var það gert á þeim grundvelli að mikilvægt væri að fá fordæmi Hæstaréttar fyrir því hvort að það hafi þýðingu að greiðandi skuldar sé tengdur þrotamanni og hvaða kröfur sé eðlilegt að gera til þess að sýnt sé fram á að fjármunir hafi í reynd tilheyrt honum.

Í málskotsbeiðninni er því haldið fram að Landsréttur hafi litið framhjá því að um var að ræða greiðslu á skuld Pressunnar ehf. sem hafi verið greidd með vitund og vilja eigenda og stjórnenda þess félags.

Standi dómur Landsréttar óhaggaður leiði það til þess að hægt sé að fara framhjá riftunarreglum gjaldþrotaskiptaréttar með því að þriðji aðili greiði skuldir þrotamanns, að mati þrotabúsins.

Hæstiréttur telur að málið geti haft fordæmisgildi og mun málið því koma til kasta dómstólsins.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×