Nú styttist óðum í Hlustendaverðlaunin 2022 sem fara fram 19. mars næstkomandi. Nýliði ársins er meðal verðlaunaflokka og eru átta hljómsveitir og tónlistarmenn sem keppast um titilinn. Lífið á Vísi ræddi við allt tónlistarfólkið sem var tilnefnt í þessum flokki og fékk smá innsýn inn í sköpunargleði þeirra og tónlist.
Hver ert þú/þið í eigin orðum?
Hljómsveitin FLOTT var stofnuð fyrri hluta árs 2020.
Stefna sveitarinnar er að semja grípandi lög sem segja sögur á íslensku frá sjónarhorni stelpna sem tengjast sjálfsmynd, samskiptum og óheppni í ástum.
Textasmíðin byggir á skandinavískri vísnahefð, þar sem reynt er að fanga ákveðna tilfinningu eða augnablik með nákvæmum og skemmtilegum lýsingum. Áhersla hljómsveitarinnar er því ekki síður á textana en tónlistina. Hljómsveitin hefur vakið töluverða athygli á síðasta ári en „Mér er drull“ ómaði reglulega í útvarpstækjum landsmanna og líklega hafa síðan flestir séð FLOTT flytja lokalagið í áramótaskaupinu ásamt Unnsteini. Það er Vigdís Hafliðadóttir sem syngur, Ragnhildur Veigarsdóttir spilar á hljómborð, Eyrún Engilbertsdóttir á gítar, Sylvía Spilliaert á bassa og Sólrún Mjöll Kjartansdóttir á trommur.
Hvenær kviknaði ástríðan fyrir tónlist?
Við höfum allar verið í kringum tónlist frá því við vorum litlar, sungið í kórum, lært á hljóðfæri og verið í hljómsveitum. Ástríðan kviknaði í bernsku.
Hvað er það skemmtilegasta við að vinna í tónlist?
Samstarfið okkar á milli, að koma fram og svo hittum við alltaf svo skemmtilegt fólk á giggum!
Hvernig hafið þið sem hljómsveit þróast frá því þið komuð fyrst fram?
Við erum orðnar öruggari á sviði, farnar að vinna hraðar (við lofum að það er meira á leiðinni) og vitum enn betur hvar styrkleikar okkar liggja.
Hvernig var tilfinningin að fá tilnefningu sem nýliði ársins?
Mjög góð! Vonandi vinnum við en það er líka allt í lagi ef að það gerist ekki.
Ekki hægt að gera öllum til geðs, amirite?