„Það verður mikill vindur og rigning og þá bráðnar snjórinn sem hefur safnast upp síðustu daga mjög hratt. Þannig að það er þetta vatnstjón sem er oft svo erfitt að eiga við og við höfum áhyggjur af,“ segir Víðir Reynisson hjá almannavörnum.
Fólk ætti að reyna að huga að niðurföllum í kring um sig þar sem óvíst sé að sveitarfélögin nái að hreinsa þau öll fyrir kvöldið.
„Það geta myndast stórir pollar og flætt að húsum ef vatn kemst ekki að niðurföllum,“ segir Víðir.
Foreldrar fylgist vel með fréttum um skólahald
Einnig er hætta á að lausamunir fjúki og þá gæti orðið meira foktjón enda gert ráð fyrir miklum vindi. Hviðurnar gætu náð þrjátíu metrum á sekúndu á suðvesturhorninu í kvöld.
„Svona veðri geta líka fylgt rafmagnstruflanir. Þetta byrjar í kvöld og verður eitthvað inn í nóttina en svo er þeitta eiginlega tvískipt því að það kemur aftur vont veður í fyrramálið. Það er ekki alveg ljóst í hvaða formi úrkoman verður þá og við bíðum bara eftir að sjá nýjustu spárnar frá Veðurstofunni sem koma síðar í dag,“ segir Víðir.
Því sé of snemmt að ætla að mæla með lokun skóla eins og gert var fyrir tveimur vikum þegar rauð viðvörun var síðast gefin út á höfuðborgarsvæðinu. „En foreldrar þurfa allavega að gera ráð fyrir því að þurfa að fylgja börnunum í skólann á morgun og bara að fylgjast vel með fréttum í kvöld og í fyrramálið og sjá hver staðan verður.“
Engar ferðir milli landshluta
Hann segir þá ljóst að ekkert ferðaveður sé milli landshluta á Suðvesturhorninu og víðar um land í kvöld og í nótt.
Samkvæmt upplýsingum frá Strætó hefur ekki verið tekin ákvörðun um að fresta ferðum strætisvagna enn sem komið er en akstursþjónusta fyrir aldraða og fatlaða mun ekki vera með ferðir í kvöld.
Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir þó ljóst að það verði einhverjar raskanir á ferðum úti á landi. Það verði þó að koma betur í ljós þegar líður á daginn hvaða vegir verða opnir og hvar vindur verður mestur.
