Nokkur flugfélög hafa ákveðið að hætta flugi til og frá Úkraínu eftir helgi og borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hvetur Íslendinga í Úkraínu til að láta vita af sér en vitað er um 24 með tengsl við Ísland í landinu. Spennan á landamærunum magnast en leiðtogar aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu lýstu yfir allsherjar herkvaðningu í dag.
„Ég ætla að tala tæpitungulaust. Það er deginum ljósara að ef Rússar ráðast lengra inn í Úkraínu munu Bandaríkin ásamt bandamönnum og vinum leggja verulegar og fordæmalausar viðskiptatakmarkanir á þá,“ sagði Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna í dag.
Valur Gunnarsson, sagnfræðingur og rithöfundur ræddi stöðuna í Úkraínu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld:
Ertu sammála þessu að innrás í Úkraínu sé yfirvofandi á næstu dögum eins og til dæmis bandaríkjaforseti hefur hamrað á undanfarna daga?
„Það er ómögulegt að segja nákvæmlega hvað Pútín gengur til en svo virðist vera sem hann ætli að þvinga fram einhverja niðurstöðu í þessu stríði sem hefur staðið í átta ár, þar sem fjórtán þúsund manns hafa þegar dáið. Einn möguleiki er að gera það með hervaldi, gera einhvers konar takmarkaða innrás og mögulega koma höggi á Úkraínumenn, sem er líklegra en allsherjarinnrás í landið. Eða hann gæti einfaldlega verið að hóta slíku til að þvinga Úkraínumenn til samningaborðsins,“ segir Valur.
Hann telur það frekar Pútín í hag að þvinga Úkraínumenn til samninga en að gera innrás. „Stríð er honum ekki í hag og allsherjarstríð alls ekki.
Þá segir hann ómögulegt að segja til um það hvernig Pútín metur það, það sé það sem heimbyggðin sé að velta fyrir sér.
Stríð kæmi Rússum illa
Hvað finnst þér sennilegast?
„Við höfum þessi fordæmi frá Georgíu og Krímskaga, hann mun annað hvort lýsa yfir sjálfstæði þessara ríkja eða hóta að gera slíkt, eða ráðast á þá. Pútín hefur oftast haft sans fyrir því hversu langt hann kemst og hversu langt hann getur gengið og allherjarstríð við Úkraínu myndi koma Rússlandi mjög illa. Ekki síst út af viðskiptaþvingunum,“ segir Valur.
Hann segir allan vara vera góðan þegar kemur að því að hvetja fólk með tengsl við Ísland til að yfirgefa Úkraínu og að það sé erfitt að segja fólki að hafa engar áhyggjur af stöðunni. Þó sé hæpið að þeir 24 með tengsl við Ísland séu í lífshættu í Úkraínu.
Ólíklegt að gripið verði til kjarnorkuvopna
Ef allt fer á versta veg erum við þá hugsanlega að tala um að þarna gæti orðið kjarnorkustyrjöld?
„Það er nú afskaplega langt í það, það eru eiginlega engar líkur á því að Rússar beiti kjarnorkuvopnun gegn Úkraínu, sem bæði yrði óvinsælt og ef vindáttin blési myndi það heldur betur koma þeim illa. En maður hefur alltaf áhyggjur. Kjarnorkustríð er versti kosturinn, fyrr ætti að prófa allt annað. Vonandi lýkur þessum máli á næstu dögum,“ segir Valur.
Þá segir hann að heræfingum Rússa á svæðinu eigi að ljúka á morgun. Annað hvort verði þeir að hörfa eða útskýra hvers vegna þeir gera það ekki. Því sé ögurstund á allra næstu dögum.