CNN greinir frá og segir að skipið sé sérhæft bílflutningaskip. Kviknað hafi í því á miðvikudaginn skammt frá Azora-eyjum í Atlantshafi.
Eldurinn braust út í flutningsrými skipsins og breiddist þaðan út. 22 skipverjum skipsins var bjargað úr skipinu af porúgalska sjóhernum.
Skipið var á leið frá Þýskalandi til Bandaríkjanna en þýski bílaframleiðandinn Porsche hefur staðfest að fjöldi bíla frá Porsche var um borð í skipinu.
Samskiptastjóri bílaframleiðandans segir að of snemmt sé að segja til um hver staðan sé á bílunum um borð í skipinu en haft verði samband við viðskiptavini sem áttu von á sendingu með skipinu.
Eigandi skipsins er japanskt skipafyrirtæki sem mun láta draga skipið til hafnar. Í millitíðinni fylgjast portúgalskir björgunaraðilar með skipinu sem rekur nú um Atlantshafið.