Frá þessu var greint á heimasíðu KA í gær, en bæði hafa þau leikið lykilhlutverk með liðum sínum síðan þau gengu til liðs við KA og KA/Þór sumarið 2020.
„Það er áfram mikill hugur í handboltanum hjá okkur og er það algjört lykilskref að halda þeim Óla og Rut innan okkar raða,“ stendur meðal annars í tilkynningu KA.
Rut gekk í raðir KA/Þórs frá Esbjerg í Danmörku árið 2020. Rut er 31 árs og hélt út í atvinnumennsku árið 2008 þar sem hún hefur leikið með Team Tvis Holstebro, Randers, FCM Håndbold og loks Esbjerg. Rut vann meðal annars EHF bikarinn með Holstebro árið 2013.
Ólafur er uppalinn FH-ingur, en hann varð Íslandsmeistari með liðinu árið 2011. Hann hélt svo út í atvinnumennsku til liðs við Flensburg í Þýskalandi þar sem hann vann Meistaradeild Evrópu árið 2014. Einnig hefur Ólafur leikið með Álaborg og KIF Kolding í Danmörku, sem og Stjörnunni hér á Íslandi.