Fótbolti

Óttar Magnús enn og aftur á far­alds­fæti

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Óttar Magnús Karlsson í treyju Venezia.
Óttar Magnús Karlsson í treyju Venezia. Venezia FC

Framherjinn Óttar Magnús Karlsson er á leið til Bandaríkjanna. Verður það sjötta landið sem Óttar Magnús hefur spilað í þrátt fyrir ungan aldur.

Óttar Magnús er í dag leikmaður ítalska úrvalsdeildarfélagsins Venezia. Hann var á láni hjá Siena í C-deildinni þar í landi en lánssamningnum var rift vegna ýmissa vandræða hjá forráðamönnum Siena.

Orðrómur fór fljótt á kreik að Óttar Magnús væri á leið til Bandaríkjanna. Nú er svo gott sem staðfest að sóknarmaðurinn muni ganga til liðs við Oakland Roots sem spilar í USL-deildinni eða bandarísku B-deildinni.

Óttar Magnús er uppalinn hjá Víkingi. Alls hefur hann spilað 42 leiki í efstu deild hér á landi og skorað 21 mark. Hann fór hins vegar ungur að árum til Hollands og lék með Ajax og Sparta Rotterdam áður en hann kom til Íslands á nýjan leik.

Þaðan fór hann til Molde í Noregi og svo til Svíþjóðar þar sem hann lék með Trelleborg og Mjällby. Hann gekk svo aftur í raðir Víkings og lék með liðinu sumarið 2020 áður en Venezia keypti hann um haustið sama ár.

Eftir stutta dvöl hjá Siena er komið að því að spila í Bandaríkjunum. USL-deildin hefst þann 13. mars en þá mætast Oakland Roots og Rio Grande Valley.

Óttar Magnús á að baki níu A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Skoraði hann í þeim tvö mörk. Þá á hann að baki 47 leiki fyrir yngri landslið Íslands þar sem hann skoraði 11 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×