Körfubolti

Doncic fór hamförum og hjó nærri meti Nowitzkis

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þegar menn skora 51 stig mega og eiga þeir að brosa.
Þegar menn skora 51 stig mega og eiga þeir að brosa. getty/Ron Jenkins

Luka Doncic héldu engin bönd þegar Dallas Mavericks sigraði Los Angeles Clippers, 112-105, í NBA-deildinni í nótt.

Slóveninn skoraði 51 stig, þar af 28 í 1. leikhluta, tók níu fráköst og gaf sex stoðsendingar. Doncic hitti úr sautján af 26 skotum sínum. Hann vantaði aðeins tvö stig til að jafna met Dirks Nowitzki yfir flest stig í leik í deildakeppninni fyrir Dallas.

Doncic og félagar hafa unnið fjóra leiki í röð og eru í 5. sæti Vesturdeildarinnar. Clippers er í 8. sæti hennar.

Phoenix Suns vann Milwaukee Bucks, 131-107, í leik liðanna sem mættust í úrslitum NBA síðasta vor. Þetta var fjórði sigur Phoenix í röð en liðið er á toppi Vesturdeildarinnar.

DeAndre Ayton skoraði 27 stig fyrir Phoenix og hitti úr tólf af fjórtán skotum sínum. Mikal Bridges skoraði átján stig, Devin Booker og Chris Paul sautján stig hvor og Paul gaf einnig nítján stoðsendingar.

Khris Middleton og Jrue Holiday skoruðu 21 stig hvor fyrir Milwaukee sem er í 4. sæti Austurdeildarinnar.

New York Knicks vann góðan sigur á Golden State Warriors á útivelli, 114-116. Julius Randle skoraði 28 stig, tók sextán fráköst og gaf sjö stoðsendingar í liði Knicks. Evan Fournier skoraði 22 stig.

Stephen Curry skoraði 35 stig fyrir Golden State og gaf tíu stoðsendingar. Liðið hefur tapað tveimur leikjum í röð.

Úrslitin í nótt

  • Dallas 112-105 LA Clippers
  • Phoenix 131-107 Milwaukee
  • Golden State 114-116 NY Knicks
  • Detroit 107-132 Memphis
  • Washington 113-112 Brooklyn
  • New Orleans 97-112 Miami
  • Houston 120-139 Toronto

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×