Þetta er niðurstaða Hæstaréttar sem dæmdi í málinu í dag. Manninum hafði áður verið dæmdar bætur í héraði og í Landsrétti, en þar var honum gert að bera tjón sitt sjálfur að þriðjungi.
Maðurinn varð fyrir slysi þann 11. ágúst það ár en þá ók hann bifhjóli sínu aftan á pallbifreið. Krafðist hann 67 milljóna króna bóta frá Verði, tryggingarfélagi mannsins. Krafist var fullra og óskertra bóta úr slysatryggingu mannsins en varanleg orörka mannsins var metin 85 prósent eftir slysið.
Tryggingafélagið viðurkenndi bótaskyldu í málinu en taldi að skerða ætti bætur um helming vegna stórkostlegs gáleysis mannsins.
Deila mannsins og Varðar snerist að miklu leyti um á hvaða hraða maðurinn hafi verið þegar slysið varð. Taldi Tryggingarfélagið manninn hafi ekið bifhjólinu á 115 km/klst er slysið var. Þessu mótmælti maðurinn en hámarkshraði á vegarkaflanum þar sem slysið var er 70 km/klst.
Þá taldi mótorhjólamaðurinn að tilkynning Varðar um að félagið hygðist skerða bætur vegna slyssins hafi borist of seint, eða átján mánuðum eftir slysið.
Þetta virðist hafa haft verulega þýðingu í úrlausn Hæstaréttar í málinu en í niðurstöðu dómsins segir að með þessu hafi tryggingafélagið sýnt af sér verulegt tómlæti, og þar með glatað rétti sínum til að skerða bætur mannsins.
Þarf Vörður því að greiða manninum fullar bætur, 67 millónir króna, að frádregnum 35 milljónum króna sem félagið hefur þegar greitt manninum vegna slyssins.