„Björgunarsveitafólk fékk kærkomna hvíld þegar óveðrinu slotaði í dag, eftir annasama helgi. Sú hvíld stóð ekki yfir lengi fyrir björgunarsveitir á suðvesturhorninu og Norðurlandi. Því þegar dagur var að kvöldi kominn fóru að berast útköll vegna veðurs á Suðurlandi og á heiðunum austur af höfuðborginni. Að þessu sinni er um að ræða aðstoðarbeiðnir vegna ófærðar, segir Davíð Már.
Borist hafa tilkynningar um fasta bíla við Hvolsvöll, nokkra bíla í Þrengslum og nú fyrr í kvöld voru björgunarsveitir kallaðar út til aðstoðar vegna fastra bíla við Litlu kaffistofuna. Þá hafa björgunarsveitir á Siglufirðirði og Ólafsfirði einnig verið kallaðar út í kvöld vegna foks á lausamunum innanbæjar.
Gular viðvaranir tóku gildi víðsvegar á Suðurlandi, suðvestur og vesturhorni landsins klukkan 18 í dag. Gert er ráð fyrir töluverðri ofankomu og hvassviðri en hiti verður víðast hvar á og yfir frostmarki. Það verður því líklega enn nóg að gera hjá björgunarsveitum næsta sólarhringinn.