Fótbolti

Andrea Rán gengin til liðs við fé­lag í Mexíkó

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir hefur samið við félag í Mexíkó.
Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir hefur samið við félag í Mexíkó. Twitter/@@AmericaFemenil

Knattspyrnukonan Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir hefur samið við mexíkóska félagið Club América. Ekki kemur fram um hversu langan samning er að ræða.

Hin 26 ára gamla Andrea Rán lék með Houston Dash í NWSL-deildinni í Bandaríkjunum á síðasta ári en fékk ekki áframhaldandi samning þar á bæ. 

Eftir að hafa leikið lengi vel í háskólaboltanum þar í landi vildi hún reyna halda sig við Bandaríkin eða þar í kring og er hún því nú mætt til Mexíkó.

Club América er sem stendur í 5. sæti deildarinnar með 10 stig þegar sex umferðir eru búnar. Alls eru 18 lið í efstu deild í Mexíkó og fara efstu átta liðin í úrslitakeppni að lokinni tvöfaldri umferð.

Andrea Rán er 26 ára gamall miðjumaður sem á að baki 12 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og hefur spilað með Breiðabliki hér á landi sem og Le Havre í Frakklandi á ferli sínum.

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands, var fyrstur með fréttirnar er hann ræddi við Fótbolti.net í gær en nýtt félag Andreu Ránar tilkynnti komu hennar stuttu síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×