Lille komst yfir eftir stundarfjórðungs leik með marki Svens Botman. Eftir rúman hálftíma fékk Benjamin Andre sitt annað gula spjald á þremur mínútum og þar með rautt. Marseille nýtti sér liðsmuninn og Cengiz Ünder jafnaði í 1-1 á 75. mínútu og þar við sat.
Sanches var tekinn af velli í uppbótartíma og var langt frá því að vera sáttur við þá ákvörðun. Stuðningsmenn Marseille ákváðu að salta í sár Sanches og létu hann heyra það.
Þetta hleypti illu blóði í Portúgalann sem sýndi stuðningsmönnum Marseille löngutöng áður en hann settist á bekkinn. Líklegt þykir að Sanches fái einhvers konar refsingu fyrir þetta athæfi sitt.
Sanches var valinn besti ungi leikmaður EM 2016 og varð Evrópumeistari með Portúgal. Honum gekk illa að fylgja því eftir en fann fjölina sína á ný eftir að hann fór til Lille 2019. Sanches varð franskur meistari með Lille á síðasta tímabili. Útséð er með að Lille verji titilinn en liðið er í 10. sæti frönsku úrvalsdeildarinnar.