Þetta er á meðal þeirra efnahagslegu aðgerða sem ríkisstjórnin hyggst ráðast í, eftir að tilkynnt var í dag að samkomutakmarkanir yrðu hertar til 2. febrúar næstkomandi. Skemmtistöðum, krám, spilasölum og spilakössum verður lokað en áfram mega 20 manns að hámarki vera saman í rými á veitingastöðum, sem mega hafa opið til 21.
Stefnt er að því að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, muni leggja fram frumvarp þar sem þeir, sem reka veitingastaði með veitingaleyfi II og III og orðið hafa fyrir minnst tuttugu prósent tekjufalli í desember 2021 til mars á þessu ári vegna takmarkana á opnunartíma, geti sótt um styrk sem geti numið allt að tólf milljónum króna fyrir tímabilið.
Styrkfjárhæðin ræðst annars vegar af fjölda stöðugilda og hins vegar af tekjufalli hvers fyrirtækisins.
Þá mun ríkisstjórnin einnig leggja fram frumvarp sem heimilar ákveðnum veitingastöðum, sem hafa orðið að sæta takmörkunum á opnunartíma, að fresta staðgreiðslu skatta og greiðslu tryggingagjalds.
„Frá því samkomutakmarkanir voru hertar í nóvember er merkjanlegur samdráttur í greiðslukortaveltu hjá fyrirtækjum í veitingarekstri, ólíkt þróun í hagkerfinu í heild. Hertar takmarkanir hafa þannig haft mikil áhrif á starfsemi ákveðinna fyrirtækja í veitingarekstri og leitt til samdráttar í tekjum þeirra. Á þetta fyrst og fremst við um fyrirtæki með vínveitingaleyfi, s.s. veitingahús og bari,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Eigendum veitingastaða með veitingaleyfi í flokki II og III verður þannig heimilað að fresta allt að tveimur greiðslum á afdreginni staðgreiðslu launa og tryggingagjalds sem eru á gjalddaga 1. janúar til og með 1. júní á árinu 2022.
Í frumvarpinu er einnig lagt til að umsóknarfrestur vegna viðspyrnustyrkja fyrir nóvembermánuð 2021 verði framlengdur til 1. mars 2022, en þeir styrkir ná til allra atvinnugreina að því gefnu að tekjufallsviðmið séu uppfyllt. Frestur til að sækja um viðspyrnustyrki rann út 31. desember 2021.