Það kemur í hlut uppstillinganefndar að stilla upp nýrri stjórn og gera tillögu að formanni hennar. Síðan er það núverandi stjórnar og trúnaðarráðs Eflingar að samþykkja listann. Atkvæðagreiðsla fer því fram á trúnaðarráðsfundi félagsins sem hefst á Grand hótel klukkan 18 í dag.
Á fundi trúnaðarráðs er hægt að leggja til breytingar á listum og samkvæmt heimildum fréttastofu mun Guðmundur Jónatan Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu, tilkynna um mótframboð eigin lista gegn A-lista Eflingar.
Ólöf Helga og Guðmundur Jónatan voru sitt hvoru megin línunnar í deilum sem upp komu innan Eflingar í haust þegar Sólveig Anna Jónsdóttir, þáverandi formaður félagsins, sagði af sér.
Félagsmenn Eflingar hafa út janúarmánuð til að bjóða fram lista gegn A-lista uppstillinganefndarinnar og gætu framboð því orðið fleiri. Það stefnir því allt í æsispennandi formannsslag innan Eflingar á næstu vikum.