Skúli greinir frá ákvörðun sinni í tilkynningu sem send var á fjölmiðla í morgun. Hann hefur verið formaður skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur síðustu átta ár og er nú formaður stjórnar Faxaflóahafna.
„Nú eru borgarstjórnarkosningar framundan og við í Samfylkingunni munum brátt velja forystusveit okkar jafnaðarmanna sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur leitt farsællega undanfarin ár. Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til endurkjörs og óska eftir stuðningi til að skipa áfram 3. sætið á listanum.
Ég legg fram reynslu mína, þekkingu og brennandi áhuga á menntun og velferð barna og ungmenna að ógleymdum grænum áherslum í skipulagi, atvinnumálum og samgöngum.
Jöfn tækifæri og jafnrétti til náms hafa verið rauður þráður í öllum mínum störfum í stjórnmálum – alveg frá því að ég tók fyrstu slagina í Röskvu, seinna sem formaður menntamálanefndar Alþingis og nú síðustu átta árin sem formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur,“ er haft eftir Skúla í tilkynningunni.
Skúli segist vilja taka virkan þátt í baráttu Samfylkingarinnar fyrir endurnýjuðu meirihlutasamstarfi í borginni undir forystu jafnaðarmanna.
Flokksval Samfylkingarinnar í Reykjavík fer fram dagana 12. til 13. febrúar næstkomandi.