Gular viðvaranir taka flestar gildi upp úr klukkan 21 eða síðar og eru í flestum landshlutum landsins. Vindur verður víðast hvar á bilinu 15-30 metrar á sekúndu og getur farið upp í 40 metra á sekúndu í hviðum.
Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir veðrið fljótt fara versnandi þegar kvölda tekur.
„Það er vaxandi vindur núna í dag og þykknar upp, það verður kominn stormur eða rok hérna suðvestan til í kvöld með rigningu. Mjög hvasst undir Eyjafjöllunum og austur í Mýrdal, þar getur vindurinn farið upp í 28 metra á sekúndu. Svo færist veðrið smám saman norður yfir landið í nótt.
„Það má segja að nýja árið hafi byrjað með látum“
Það fer einnig að hvessa fyrir norðan og austan og svo gengur á með talsverðri rigningu og slyddu á Suðausturlandi og Austfjörðum og líklegt að það verði snjókoma eða hríð á fjallavegum á Austfjörðum. Veðrið gengur síðan niður í fyrramálið,“ segir Þorsteinn.
Gera má ráð fyrir að einhverjir muni koma til með að eiga erfitt með svefn veðrið nær hámarki upp úr miðnætti suðvestanlands. Veðrið færist svo norður yfir land og nær hámarki þar milli klukkan þrjú og fjögur í nótt. Veðurfræðingur varar fólk við að vera á ferðinni.
„Árið hefur byrjað með miklum lægðagangi og alls konar hvassviðri, stormur og rok. Þetta virðist vera svolítið bara í kortunum núna á næstunni og þetta er bara enn ein lægðin sem kemur núna í kvöld. Það má segja að nýja árið hafi byrjað með látum,“ segir Þorsteinn V. Jónsson veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.