Klay Thompson mun að öllum líkindum spila sinn fyrsta leik í næstum þrjú ár þegar að Golden State Warriors taka á móti Cleveland Cavaliers í Chase Arena í San Francisco í kvöld. Thompson, sem er ein allra besta skytta sögunnar og hinn helmingur buslubræðra (e. splash brothers), hefur ekki spilað NBA leik síðan 13. júní 2019 þegar að hann meiddist á hné í úrslitaeinvíginu gegn Toronto Raptors.
Hann sleit svo hásin strax í kjölfarið á endurhæfingunni og tókst ekki að komast á völlinn í millitíðinni. Hann hefur þénað rúmar 84 milljónir dollara á meiðslatímanum. Hann er þó kokhraustur og segist tilbúinn í slaginn.
„Ég veit hver ég er og ég veit hvað ég hef gert. Hversu oft þarf ég að gera eitthvað sem enginn annar hefur gert í sögu þessa leiks? Þarf ég að skora 50 stig í einum fjórðungi núna? Hvaða rugl er þetta? En það skiptir ekki máli, þetta er búið. Ég ætla að nota þetta til þess að hvetja mig áfram“, sagði Thompson við Nick Friedell, blaðamann ESPN í gær.
Leikur Golden State Warriors og Cleveland Cavaliers hefst klukkan 01:30 aðfararnótt mánudags.