„Þetta eru klárlega miklu betri aðstæður núna,“ segir Heimir léttur í bragði þegar fréttastofa náði tali af honum í dag. Hann kveðst einkennalítill, enda þegar búinn að fá veiruna auk þess sem hann er tvíbólusettur.
Fengu einkenni áður en toppnum var náð
Heimir og Sigurður B. Sveinsson klifu tind Everest í maí síðastliðnum til styrktar Umhyggju, félagi langveikra barna. Þeir byrjuðu að finna fyrir Covid-einkennum strax í búðum þrjú og fjögur, áður en þeir komu á toppinn. Það var svo ekki fyrr en þeir komust niður í grunnbúðir að þeir fengu sýkinguna staðfesta með prófi, eftir talsverðar hrakfarir á niðurleiðinni.
„Maður veit náttúrlega ekkert almennilega, því þetta eru svo klikkaðar aðstæður í fjallinu. Við höfðum í raun ekki hugmynd um hvort væri, maður hafði ekki samanburðinn af þetta háu fjalli. Ég var algjörlega búinn á því á niðurleiðinni en erfitt að segja hvort það var út af Covidinu. En Siggi var mjög veikur þegar við vorum komnir niður í búðir tvö,“ rifjar Heimir upp.
Miklu ferskari en síðast
Einangrunin er öllu þægilegri í þetta sinn en Heimir er nýkominn heim til Íslands frá Barcelona á Spáni og telur líklegt að hann hafi smitast þar. Margir í vinahóp sem hann var með úti eru einnig smitaðir.
„Ef maður getur fengið þetta á Everest þá getur varla verið mikið mál að fá þetta í milljónastórborg,“ segir hann og hlær. Hann sé með leiðinlegan hósta í þetta sinn en annars hress.
„Ég er með bragðskyn og lyktarskyn og er bara að reyna að þrífa heima hjá mér. Annars bara ferskur og miklu ferskari en síðast,“ segir Heimir.
Líklegt verður að teljast að Heimir hafi nælt sér í hið bráðsmitandi ómíkron-afbrigði veirunnar úti í Barcelona en það er víða orðið ráðandi meðal nýsmitaðra í Evrópu og öðrum heimsálfum. Dæmi eru um það síðustu vikur að fólk sem áður greindist með veiruna fái hana aftur; til að mynda Kolfinna Frigg Sigurðardóttir, sem greindist með ómíkron í desember mánuði eftir að hún lauk einangrun vegna fyrstu sýkingar. Þegar viðtalið við Kolfinnu var birt höfðu aðeins um tuttugu til þrjátíu manns greinst tvisvar með veiruna.