Þetta segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, í samtali við fréttastofu.
„Þetta var skoðað í framhaldi þess að bandaríska sóttvarnarstofnunin breytti sínum leiðbeiningum og niðurstaðan var sú að fara niður með þetta í sjö daga, það munar þrem dögum og það er ansi mikið,“ segir Víðir.
Hann bætir því við að ekki sé til skoðunar að fara niður í fimm daga einangrun, líkt og Bandaríska sóttvarnastofnunin (CDC) gerði.
„En í þessu eins og öllu öðru, þegar að við fáum betri upplýsingar og erum með gögn sem að sýna fram á eitthvað, þá hefur aldrei staðið á yfirvöldum að breyta um stefnu og taka nýjustu þekkinguna inn í spilið.“
Víðir segir þá að í gegnum faraldurinn hafi það margsýnt sig að hlutirnir geti gerst hratt. Upplýsingar sem yfirvöld miðli til almennings geti gilt í stuttan tíma.
„Og það sem við sögðum fyrir fimm sex vikum gildir ekki lengur og það er bara einkenni þessarar veiru, hún breytir sér og kemur okkur á óvart en á sama tíma er okkar færasta vísindafólk um allan heim að koma með nýjar lausnir og koma með nýja þekkingu sem hjálpar okkur að taka nýjar ákvarðanir.“
Kári kallar eftir fimm dögum
Í fyrradag sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, að hann teldi skynsamlegast að stytta einangrun enn frekar en þegar hefur verið gert, niður í fimm daga. Kórónuveiran hafi dreifst hratt um samfélagið og óráðlegt sé að halda fólki í einangrun í lengri tíma.
„Mér fyndist ekki vitlaust að stytta hana niður í svona fimm daga vegna þess að það sem við erum að gera með þessu er ósköp einfaldlega að minnka líkurnar á því að smitin breiðist út, en vegna þess hvað þau eru að breiðast mikið út núna, þá finnst mér aðeins of mikið í látið að halda fólki í einangrun í sjö til tíu daga,“ sagði Kári.

Hann sagði þá að faraldurinn virtist vera að fylgja lögmálum þróunarfræðinnar, þar sem margt bendi til þess að ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar valdi síður alvarlegum veikindum en fyrri afbrigði.
„Það er að segja að sú tegund sem fjölgar sér hraðast, hún tekur yfir og þá er ekki pláss fyrir hinar. Þannig að ég held að við getum verið nokkuð viss um að þessari farsótt - af þessari veiru - kemur til með að ljúka tiltölulega fljótlega.“