Þó að tugir skjálfta mælist á svæðinu á hverjum klukkutíma, sammælast jarðvísindamenn um að þessi hrina sé nokkuð nettari í sniðum heldur en sú sem hristi hér allt í aðdraganda gossins í Geldingadölum. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands mælist enn enginn gosórói á svæðinu, en allt er þetta þó undir smásjá vísindamanna, ekki síður núna þegar hrinan virðist vera í rénun því það er einmitt það sem gerðist í aðdraganda gossins við Fagradalsfjall þann 19. mars. Síðustu tvo sólarhringa hafa einungis þrír skjálftar, stærri en þrír, mælst á svæðinu, en samtals eru þeir þó yfir 300 síðustu 48 klukkustundir.
Skjálftinn í morgun varð um klukkan 10:20 og mældist 3,7 að stærð, um 2 km austur af Kleifarvatni. Skjálftinn er hluti af gikksjálftavirkninni sem hefur verið viðvarandi undanfarna viku á Reykjanesskaga vegna kvikuhreyfinga við Fagradalsfjall. Nokkuð snarpur skjálfti, 3,9 að stærð, fannst mjög greinilega í gær um klukkan 14:30.