Samkvæmt Gazzetta dello Sport er ítalska félagið Lazio með Albert í sigtinu nú þegar félagaskiptaglugginn opnast í janúar. Áður höfðu skoskir fjölmiðlar greint frá því að skoski risinn Celtic væri á höttunum eftir Alberti.
Hið fornfræga lið Lazio leikur nú undir stjórn hins keðjureykjandi Maurizio Sarri, sem áður hefur verið hjá Juventus, Chelsea og Napoli.
Lazio hafnaði í 6. sæti á síðustu leiktíð í ítölsku A-deildinni og er í 8. sæti nú þegar tímabilið er hálfnað, þó aðeins þremur stigum frá 5. sætinu sem Juventus situr í.
Gazzetta dello Sport greindi frá því að raunar væru tveir Guðmundssynir á blaði hjá Lazio, Albert og Gabriel, en tók fram að þeir væru ekki skildir og ekki einu sinni samlandar. Sá síðarnefndi er sænskur bakvörður Lille í Frakklandi.
Albert er þessa dagana í jólafríi í Dúbaí og nýtur þar lífsins með fjölskyldu sinni sem nú er útlit fyrir að flytji frá Hollandi á nýju ári.
Albert, sem er 24 ára, hefur spilað 29 A-landsleiki og skorað í þeim sex mörk. Hann fór ungur til Hollands og gekk í raðir PSV Eindhoven en var seldur til AZ sumarið 2018. Fyrir AZ hefur Albert, samkvæmt Soccerway, skorað 17 mörk í 72 deildarleikjum.
Hann skoraði tvö mörk, eða nánast þrennu, í 4-1 sigri gegn Willem II rétt fyrir jól og hefur því skorað fjögur mörk í 17 deildarleikjum fyrir AZ sem er í 5. sæti hollensku úrvalsdeildarinnar.