Sá sem óhappinu olli var síðan stöðvaður af lögreglu á Reykjanesbraut, við álverið í Straumsvík og handtekinn, grunaður um ölvun við akstur. Að lokinni sýnatöku var viðkomandi vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins. Ökumaður bifreiðarinnar sem ekið var á var fluttur með sjúkrabíl til aðhlynningar á bráðamóttöku vegna eymsla í baki, hálsi og öxl.
Ölvunarakstur og innbrot
Fimm aðrir ökumenn voru stöðvaðir í gærkvöldi og nótt, grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og/eða áfengis. Þrír þeirra í Reykjavík, ýmist í miðbænum eða Hlíðunum. Einn var stöðvaður í Garðabæ, og loks einn til viðbótar í Hafnarfirði.
Upp úr klukkan tíu í gærkvöldi var svo tilkynnt um húsbrot og eignaspjöll í fyrirtæki í Hlíðunum í Reykjavík, þar sem farið hafði verið inn í húsnæði fyrirtækisins og hlutir þar inni skemmdir. Klukkan hálf fimm í nótt var svo tilkynnt um annað innbrot, einnig í fyrirtæki í Hlíðunum. Þar var maður handtekinn á vettvangi grunaður um innbrotið og hann vistaður í fangageymslu lögreglu.