Þetta skrifar Þórólfur í stuttum pistli á Covid.is en þar vísar hann í reglugerð sem tók gildi þann 22. desember og fjallar um að fólk eigi að dvelja í tíu daga einangrun eftir greiningu smits af Covid-19. Þar segir einnig að læknar á göngudeild geti stytt eða lengt einangrun.
„Mikið er nú hringt í göngudeildina til að fá styttingu einangrunar. Rétt er að ítreka að ekki er hægt að meta styttingu einangrunar fyrr en sjö dagar hafa liðið á einangrunina,“ skrifar Þórólfur.
Hann hvetur fólk sem er smitað en einkennalaust og vill stytta einangrun að hafa ekki samband við göngudeild fyrr en minnst sjö dagar eru liðnir af einangruninni.
Þá segir í pistlinum að sóttvarnalæknir skoði að gera breytingar á leiðbeiningum um einangrun og sóttkví vegna Covid-19 og með hliðsjón af nýjum leiðbeiningum sóttvarnastofnunnar Bandaríkjanna.
Þar á bæ hefur verið lagt til að einangrun einkennalausra verði stytt úr tíu í fimm daga.