Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Segir þar að búast megi við því að styrkurinn verði áfram hár fram eftir degi á nýársdag ef hæglætisveður verði í borginni.
„Miðað við undanfarin ár gæti 1. janúar 2022 orðið fyrsti svifryksdagur árins vegna mengunar frá skoteldum. Heilsuverndarmörkin á sólarhring eru 50 míkrógrömmm á rúmmetra,“ segir í tilkynningunni og fólk hvatt til að fylgjast með loftgæðum á loftgæði.is.
Borgarbúar eru hvattir til að sýna aðgát og huga að börnum og dýrum ásamt því að ganga rétt frá flugeldarusli. Svifryksmengun vegna flugelda geti verið mjög varasöm og heilsuspillani en á undanförnum árum hafi verið flutt inn um 600 tonn af skoteldum á hverju ári.
Árið í ár sé engin undantekning en fyrir þessi áramót hafi verið flutt inn til landsins tæplega 640 tonn af skoteldum en þar af sé púðurmagnið um 56 tonn.
Fólk er hvatt til að fylgjast vel með veðurspá, sem enn sé óljós, en verði hæglætisveður verði auknar líkur á slæmum loftgæðum. Fólk er jafnframt hvatt til að kaupa rótarskot Slysavarnafélagsins Landsbjargar vilji það styrkja starf björgunarsveitanna en á sama tíma huga að loftgæðum.
Gæludýraeigendur eru jafnframt hvattir til að huga vel að dýrum sínum. Best sé að halda köttum inni dagana í kring um áramót og hafa hunda ávallt í ól þegar þeim sé hleypt út, þó það sé aðeins út í garð.