RÚV greinir frá þessu en Þórólfur Guðnason afhenti heilbrigðisráðherra nýtt minnisblað í gær. Fram kemur í frétt RÚV að Þórólfur leggi jafnframt til að sundlaugar og líkamsræktarstöðvar megi taka við helmingi færri gestum en venjulega og að afgreiðslutími veitinga- og skemmtistaða verði styttur enn frekar.
Áður hafði Vísir greint frá því að Þórólfur Guðnason hafi lagt til 20 manna samkomutakmörkun og að grunnskólar, framhaldsskólar og háskólar hefji ekki starfsemi fyrr en 10. janúar. Núgildandi takmarkanir gilda til og með 22. desember. 50 manna fjöldatakmörkun er nú við lýði en allt að 500 manns er leyft að vera í hólfi á viðburðum gegn framvísun vottorðs.
Sérstök ráðherranefnd um samræmingu aðgerða hittist á fjarfundi klukkan 15 í dag til að fara yfir nýjar tillögur Þórólfs. Þess má vænta að Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra muni tilkynna framhald sóttvarnaaðgerða að loknum ríkisstjórnarfundi á morgun sem hefst klukkan 9:30 í fyrramálið.