Tollgæslan stöðvaði manninn í Leifsstöð í byrjun nóvember, sem reyndist hafa um það bil 600 grömm af kókaíni í fórum sínum. Efnin hafði hann falið í 92 pakkningum innvortis, það er að segja inni í líkama sínum.
Vitað er að slík aðferð getur verið lífshættuleg þegar pakkningar bresta. Erfiðar aðgerðir hafa verið framkvæmdar í slíkum tilvikum hér á landi.
Rannsóknin beinist meðal annars að fyrri ferðum mannsins til landsins, eins og lögreglan staðfestir í svari við fyrirspurn fréttastofu. Vitað er til þess að leið hans hafi legið til landsins áður en í hvaða erindagjörðum er óljóst. Grunur leikur á um að það hafi verið í sama tilgangi og nú.
Samkvæmt útreikningum fréttastofu gætu 600 grömm af tiltölulega hreinu kókaíni verið meira en 50 milljón króna virði í smásölu, enda styrkur kókaíns sem er gert upptækt á götum úti almennt í kringum 20%.