Þetta segir í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar en framkvæmdir hafa lengi staðið yfir við Tryggvagötu og ílengdust nokkuð þegar í ljós kom að skipta þyrfti um gamlar lagnir. Nú hefur gatan hins vegar tekið stakkaskiptum með hönnun sem leggur áherslu á fólk og blómstrandi mannlíf.
Haft er eftir Áslaugu Traustadóttur landslagsarkítekt hjá Landmótum, sem var með umsjón með hönnun torgsins, að mósaíkmynd Gerðar sé einstök en hingað til hafi hún verið falin og fái nú að njóta sín betur.
Hins vegar hafi verið ákveðin áskorun að hanna í kring um hana torg sem ekki myndi draga athygli frá verkinu og því hafi verið ákveðið að hafa torgið steypt frekar en hellulegt. „Það er flísalögn í kring um listaverkið með íslensku gabbrói sem er mjög einstakt. Markmiðið er að stela ekki athygli frá verkinu með því að koma með nýtt mynstur þarna inn með hellulögn.“

Fram kemur í tilkynningunni að markmiðið sé að hafa götuna græna og því voru sett niður eins mörg tré og hægt var, bæði reynir, hlynur og elri. Þá verður settur langur bekkur alveg meðfram Tollhúsinu, en hann á eftir að koma. Torgið er nú opið öllum, búið er að fjarlægja framkvæmdagirðingar.