Hlutfall kortaveltu á netinu af heildarkortaveltu í innlendri verslun hefur einnig verið hæst í nóvembermánuði ár hvert. Það hlutfall jókst um 6,5% á milli mánaða í ár og var 13,3% í nóvember síðastliðnum, samanborið við 16,6% í fyrra.
Þetta kemur fram í greiningu Rannsóknaseturs verslunarinnar sem segir greinilegt að kortavelta nóvembermánaðar einkennist af jólagjafakaupum. Heilt yfir nam aukning í verslunartengdri veltu 8,7% milli mánaða.
Stóraukning í sölu raf- og heimilistækja
Mest var aukningin milli október og nóvember í veltu gjafavöru- og minjagripaverslunar eða 64,9% og í veltu verslunar með raf- og heimilistæki eða 52,5%. Velta í verslun með heimilisbúnað jókst um 23,3% á milli mánaða, í bóka, blaða og hljómplötuverslun um 20,2% og velta byggingavöruverslunar jókst um 21,7%. Velta í innlendri fataverslun stóð þó í stað á milli mánaða.
Heildar kortavelta Íslendinga hérlendis nam rúmum 79,5 milljörðum króna í nóvember síðastliðnum, sem er 12,6% hærra en í nóvember í fyrra og 18,9% hærra en í nóvember 2019.
Hlutfall erlendrar kortaveltu af heildarkortaveltu á Íslandi var 15,6% í nóvember en sama hlutfall var 2,3% í fyrra og 16,4% í nóvember 2019. Erlend kortavelta dróst saman um 30% milli mánaða í takt við fækkun ferðamanna, en brottfarir ferðamanna um Keflavíkurflugvöll drógust saman um tæp 27% á sama tíma.