Einkunnagjöf MSCI ESG Fund Ratings miðar að því að mæla styrkleika verðbréfasjóða og kauphallarsjóða gagnvart langtímaáhættum og tækifærum sem stafa af umhverfis-, félags- og stjórnarháttum.
Í tilkynningunni segir að sjóðurinn sé þar með kominn í flokk með fremstu sjóðum í heiminum með tilliti UFS-þátta, þ.e. umhverfismála, félagslegra þátta og góðra stjórnarhátta. Í greiningu MSCI kemur fram að „Stefnir – Scandinavian Fund ESG“ mælist ofar en 94 prósent sjóða sem MSCI veitir einkunn, en þeir eru um 34 þúsund talsins á heimsvísu.
Skammt er síðan áherslum „Stefnis - Scandinavian Fund ESG“ var breytt en síðastliðið vor var ákveðið að stýra sjóðnum samkvæmt aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga. Sjóðurinn fjárfestir í „leiðandi fyrirtækjum í Skandinavíu sem standa öðrum framar í sjálfbærri verðmætasköpun“, eins og það er orðað í tilkynningunni.
Í tilkynningunni kemur einnig fram að Stefnir finnir fyrir mjög auknum áhuga, bæði fagfjárfesta og smærri eigenda í sjóðum, á ábyrgum og sjálfbærum fjárfestingarkostum. Haft er eftir Per Matts Henje, sjóðstjóra, að Stefnir vilji bjóða fjárfestum upp á ábyrga og fjölbreytta fjárfestingakosti í sem flestum eignaflokkum.
„Ítarleg upplýsingagjöf er lykilatriði til að sýna fram á þá samfélagslegu ábyrgð sem Stefnir vilja stuðla að. Með því að taka tillit til umhverfismála, félagslegra þátta og góðra stjórnarhátta við fjárfestingar teljum við okkur geta haft jákvæð áhrif á samfélag okkar, sem er bæði eigendum í sjóðum Stefnis og öðrum haghöfum til góðs,“ segir Per.
![](https://www.visir.is/i/53EADACDA049C9FC5804F43FD93F7BDA07226B200CA3587720290CEBDE1BBF03_713x0.jpg)
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.