Útgerðarfélagið Brim sendi út kauphallartilkynningu í gær þar sem greint var frá því að Gréta María hefði óskað eftir því að láta af störfum sem framkvæmdastjóri nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla hjá Brimi.
Gréta María tók sæti í stjórn Arctic Adventures sumarið 2020. Þá var Gréta María framkvæmdastjóri Krónunnar en hún réð sig til Brims í febrúar á þessu ári.
Á meðan Gréta María starfaði hjá Krónunni hlaut hún Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar árið 2019 fyrir áherslu á umhverfis- og lýðheilsumál.
Arctic Adventures, sem er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins, skipuleggur, selur og sér um framkvæmd ferða og afþreyingar um allt land. Félagið, sem velti um 6 milljörðum króna áður en heimsfaraldurinn hófst, tapaði tæplega 1,2 milljörðum króna á síðasta ári samanborið við 115 milljóna króna hagnað á árinu 2019.
Framtakssjóðurinn Icelandic Tourism Fund, sem er í rekstri Landsbréfa, er stærsti hluthafi Arctic Adventures með ríflega tuttugu prósenta hlut. Félagið Wings Capital, sem er meðal annars í eigu Davíðs Mássonar og Halldórs Hafsteinssonar, er næststærsti hluthafinn með 17,5 prósenta hlut.
Þá fer félagið Umbrella, sem er í eigu feðganna Kára og Steinars Björnssona og Björns Hróarssonar, fyrrverandi eiganda Extreme Iceland, með 15,9 prósenta hlut í Arctic Adventures.
Freyja, framtakssjóður á vegum Kviku eignastýringar, fer með 15,8 prósenta hlut og Bakkagrandi, félag Styrmis Þórs, heldur á tæplega tíu prósenta hlut í ferðaþjónustufyrirtækinu.
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.