Innherji

Gréta María ráðin forstjóri Arctic Adventures

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Gréta María Grétarsdóttir.
Gréta María Grétarsdóttir.

Gréta María Grétarsdóttir hefur verið ráðin forstjóri Arctic Adventures samkvæmt heimildum Innherja. Hún kemur í stað Styrmis Þórs Bragasonar sem lætur af störfum en hann hefur starfað sem forstjóri ferðaþjónustufyrirtæksins frá miðju ári 2019.

Útgerðarfélagið Brim sendi út kauphallartilkynningu í gær þar sem greint var frá því að Gréta María hefði óskað eftir því að láta af störfum sem framkvæmdastjóri nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla hjá Brimi.

Gréta María tók sæti í stjórn Arctic Adventures sumarið 2020. Þá var Gréta María framkvæmdastjóri Krónunnar en hún réð sig til Brims í febrúar á þessu ári.

Á meðan Gréta María starfaði hjá Krónunni hlaut hún Viðskipta­verðlaun Viðskipta­blaðsins og Frjálsr­ar versl­un­ar árið 2019 fyr­ir áherslu á um­hverf­is- og lýðheilsu­mál.

Arctic Adventures, sem er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins, skipuleggur, selur og sér um framkvæmd ferða og afþreyingar um allt land. Félagið, sem velti um 6 milljörðum króna áður en heimsfaraldurinn hófst, tapaði tæplega 1,2 milljörðum króna á síðasta ári samanborið við 115 milljóna króna hagnað á árinu 2019.

Framtakssjóðurinn Icelandic Tourism Fund, sem er í rekstri Landsbréfa, er stærsti hluthafi Arctic Adventures með ríflega tuttugu prósenta hlut. Félagið Wings Capital, sem er meðal annars í eigu Davíðs Mássonar og Halldórs Hafsteinssonar, er næststærsti hluthafinn með 17,5 prósenta hlut.

Þá fer félagið Umbrella, sem er í eigu feðganna Kára og Steinars Björnssona og Björns Hróarssonar, fyrrverandi eiganda Extreme Ice­land, með 15,9 prósenta hlut í Arctic Adventures.

Freyja, framtakssjóður á vegum Kviku eignastýringar, fer með 15,8 prósenta hlut og Bakkagrandi, félag Styrmis Þórs, heldur á tæplega tíu prósenta hlut í ferðaþjónustufyrirtækinu.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×