Guðlaugur Þór Þórðarson fer úr utanríkisráðuneytinu og verður ráðherra umhverfis- og loftslagsmála.
Í stjórnarsáttmálanum sem kynntur var í dag segir að stofnaður verði þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum og jöklum í þjóðlendum á hálendinu með breytingum á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð. Sérstök áhersla verði lögð á samtal og samvinnu við heimamenn og svæðisráðum.
Sjá einnig: Þetta ætlar ríkisstjórnin að gera á kjörtímabilinu
Í fyrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna náðist ekki samkomulag um hálendisþjóðgarð. Aðspurður um það hvort minnka eigi mögulegan hálendisþjóðgarð í ljósi þess að stækka eigi Vatnajökulsþjóðgarð sagði Bjarni:
„Við tökum tvö skref aftur á bak og byrjum með aðeins, hvað eigum við að segja, umfangsminni hugmyndir um að grípa til friðana og stofnunar þjóðgarðs á hálendinu. Engu að síður er verið að vinna áfram í þá átt.“
Bjarni sagði einnig að verið væri að reyna að læra af því ferli sem hefði átt sér stað. Það hefðu ekki bara verið stjórnarflokkarnir sem hefðu verið ósammála.
„Við erum í samtali við samfélagið og það voru margar athugasemdir sem við erum að horfa til og hlusta eftir.“
Hrein orka verðmætari
Bjarni sagði að honum þætti sjálfsagt að virkjanakostir sem þegar væru komnir í nýtingarflokk kæmi til greina að nýta og virkja. Ísland væri í miðjum orkuskiptum.
„Við horfum til þess að græn orka á Íslandi geti verið grundvöllur til þess að viðhalda sterkri ímynd Íslands á alþjóðavísu en líka að hjálpa til við orkuskiptin innanlands og gera okkur að grænna og vænna samfélagi um leið og við aukum verðmætasköpun.“
Hann sagði gríðarleg tækifæri í orkunni og að hrein orka væri að verða verðmætari.
Þá sagði Bjarni að ekkert hefði gengið í að samþykkja nýja rammaáætlun frá 2013 og það mætti ekki vera þannig áfram.
Viðtalið við Bjarna má sjá hér að neðan.